Miklar deilur hafa staðið yfir milli Evrópusambandsríkja og Hvíta-Rússlands undanfarna mánuði eftir að Evrópusambandið setti viðskiptaþvinganir á Hvíta-Rússland í kjölfar handtöku blaðamannsins Roman Prótasevíts í vor.
Pólsku flóttamannasamtökin Ocalenie Foundation segjast hafa miklar áhyggjur af stöðunni á landamærum Hvíta-Rússlands. Samtökin hafi verið í sambandi við flóttafólkið, sem er hópur 32 flóttamanna, á landamærum Hvíta-Rússlands að Póllandi. 25 þeirra séu heilsuveil og 12 alvarlega veik.
Hópurinn hafi ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni og hafi ekki fengið að borða síðan á þriðjudag.
„Hin 52 ára gamla Frú Gul mun fljótlega deyja fyrir framan börnin sín fimm. Það verður að bjarga henni NÚNA,“ skrifuðu samtökin á Twitter í dag.
Samkvæmt samtökunum er konan flóttamaður frá Afganistan og með henni í för eru tveir synir hennar og þrjár dætur, yngsta barnið fimmtán ára gamalt. Engar frekari upplýsingar sé að fá um fjölskylduna en fleiri flóttamenn í hópnum séu frá Afganistan.
Afganski hópurinn hefur verið fastur á landamærunum í tólf daga en hann er sagður hafa flúið frá Afganistan vegna valdtöku Talibana í liðinni viku. Pólsk yfirvöld segjast ekki geta hleypt hópnum inn í landið og hvítrússneskir landamæraverðir vakta hópinn allan sólarhringinn svo hann snúi ekki aftur til Hvíta-Rússlands.
Fréttastofa BNS greindi frá því í dag að auk þessa 32 manna hóps við landamærin að Póllandi sé hópur 41 flóttamanns frá Írak við landamærin að Lettlandi.
Yfirvöld í Póllandi, Lettlandi og Litháen hafa greint frá því undanfarið að gífurleg fjölgun hafi verið í fjölda flóttamanna frá Írak og Afganistan sem hafi reynt að komast yfir landamærin frá Hvíta-Rússlandi undanfarið.
Utanríkisráðuneyti Hvíta-Rússlands sakaði í dag pólsk yfirvöld um að hafa staðið að aukningu flóttamanna frá Afganistan vegna samstarfs Póllands og Bandaríkjanna í málum Afganistan undanfarið. Evrópusambandið hefur hins vegar sakað Alexander Lúkasjenka, forseta Hvíta-Rússlands, um að hafa staðið að flóttamannastraumnum vegna deilna við Evrópusambandið.
Talsmaður yfirvalda í Lettlandi sagði í dag að lettnesk stjórnvöld muni fylgja óskum Mannréttindadómstólsins og tryggja flóttafólkinu mat, vatn og aðgengi að læknisþjónustu. Pólsk yfirvöld hafa enn ekki tjáð sig um málið.