Innlent

Ökumenn fari varlega í roki í kvöld

Samúel Karl Ólason skrifar
Vindur verður töluverður á vestanverðu landinu í dag.
Vindur verður töluverður á vestanverðu landinu í dag. Vísir/Vilhelm

Búast má við hvössum vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi í dag og eru ökumenn hvattir til að fara varlega þar. Það sama gildir um ökumenn sem eiga leið undir Hafnarfjall og um Reykjanesbraut.

Gert er ráð fyrir 30 til 35 metrum á sekúndu í hviðum undir Hafnarfjalli eftir hádegi í dag. Búist er við að veðrið verði í hámarki milli sex og níu í kvöld og um þá á einnig að vera leiðinlega hvasst á Reykjanesbraut, þvert á veg og með rigningu.

Rok þetta er rakið til dýpkandi lægðar yfir Grænlandshafi. Hún valdi vaxandi suðaustanátt í dag og rigningu sunnan- og vestanlands, samkvæmt spám á vef Veðurstofu Íslands. Mun hægara og bjart með köflum á norðaustanverðu landinu.

Vindinn hægir strax í nótt og á morgun er spáð suðvestan fimm til tíu metrum á sekúndu og vætu öðru hvoru.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:

Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og væta með köflum, einkum S-til. Hiti 8 til 14 stig.

Á þriðjudag:

Norðlæg eða breytileg átt 3-10 og bjart með köflum, en dálitlar skúrir um landið N-vert. Hiti 5 til 10 stig, en 10 til 15 stig yfir daginn sunnan heiða.

Á miðvikudag:

Suðvestan 5-10 og skýjað með köflum, en stöku skúrir S- og V-lands. Hiti 7 til 13 stig.

Á fimmtudag:

Suðvestanátt og stöku skúrir, en léttskýjað A-lands. Hiti breytist lítið

Á föstudag:

Útlit fyrir norðlæga átt með dálítilli rigningu N-lands, en þurru veðri syðra. Kólnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×