Tvöþúsund metra flugbraut er á Egilsstöðum, nægilega löng fyrir flestar þotur sem notaðar eru í fraktflugi til og frá Íslandi. Þeir sem eru að ala upp lax í sjókvíum Austfjarða sjá möguleika á að nýta flugvöllinn en fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

„Í ár verður hátt í 20 þúsund tonnum slátrað af laxi hér á Austurlandi. Við erum að sjá vöxtinn, bara framtíðarvöxtinn eftir nokkur ár, kominn í 40-50 þúsund tonn,“ segir Jens Garðar Helgason, forstjóri Laxa fiskeldis ehf.
„Þannig að vera kominn með reglulegt cargo-flug inn á Egilsstaðaflugvöll er kjörið tækifæri til þess í rauninni ennþá meira að halda eftir virðisaukanum hér í fjórðungnum.“

Í fréttum okkar nýlega fjölluðum við um áhuga Austfirðinga á að fá beint millilandaflug með ferðamenn um Egilsstaðaflugvöll - þeir vilja fleiri gáttir inn í landið. Fiskeldismenn vilja líka fleiri gáttir - til að koma laxi á erlenda markaði.
„Stærsti hlutinn er að fara með skipum til Evrópu. En síðan er líka flug til Ameríku. Og möguleikarnir á Asíu og austur- og vesturströnd Ameríku - að fljúga því beint frá Egilsstöðum - það eru gríðarlega miklir möguleikar sem við getum séð þar.“

-Er þetta raunhæft?
„Þetta er algerlega raunhæft.“
Jens Garðar segir þó vanta aðstöðu á flugvellinum til að afgreiða fraktflugvélar.
„Kannski 800 fermetra skemmu eða vöruhús. Og þar inni þurfa að vera tæki, sem þurfa að vera til staðar; gegnumlýsingartæki og málmleitartæki. Þetta er kannski fjárfesting upp á 300-400 milljónir, sem ég held að myndi bara strax fara að tikka inn.“

Jens Garðar segir málið hafa verið rætt við stjórnmálamenn, bæði heima í héraði og á landsvísu.
„Ég held að þetta sé eitthvað sem ég held til dæmis að Isavia ætti að skoða - í rauninni bara til þess að auka þjónustuna og auka umferðina um Egilsstaðaflugvöll,“ segir forstjóri Laxa fiskeldis.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: