Bíó og sjónvarp

Aldrei fleiri íslenskar myndir á dagskrá RIFF

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
RIFF teymið ásamt sjálfboðaliðum á blaðamannafundinum í dag.
RIFF teymið ásamt sjálfboðaliðum á blaðamannafundinum í dag. RIFF

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, hefst með krafti í næstu viku, fimmtudaginn 30. september. Miðasalan opnaði formlega í dag á vef hátíðarinnar, www.riff.is en þar er hægt að kaupa hátíðarpassa og staka miða. 

Á blaðamannafundi á upplýsinga- og gestastofu RIFF í dag, kom fram að kynjahlutfall leikstjóra í ár er nánast jafnt. Sýndar eru myndir frá 61. landi og hafa aldrei verið sýndar fleiri íslenskar myndir á hátíðinni.

RIFF stækkar með hverju ári og þykir ein áhugaverðasta kvikmyndahátíðin í Evrópu. Til að setja stærð hátíðarinnar í samhengi voru sýndar innan við tuttugu myndir á fyrstu RIFF hátíðinni en nú eru þær hátt í hundrað. 

Hrönn Marinós­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri RIFF, kynnti dagskrá hátíðarinnar fyrir fjölmiðlum í dag.RIFF

Opnunarmyndin í ár er Versta manneskja í heimi eftir Normanninn Joachim Trier, sem vakið hefur mikla athygli frá frumsýningu á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrrí sumar. Hátíðinni lýkur 10. október með sýningu myndarinnar Margrét fyrsta, þar sem danska stórleikkonan Trine Dyrholm túlkar fyrsta kvenkyns þjóðhöfðingja Norðurlanda. Trier og Dyrholm eru bæði meðal heiðursgesta hátíðarinnar.

Fjórir erlendir heiðursgestir á leið til landsins 

Hátíðin er nú haldin í átjánda sinn og  samanstendur dagskráin af 85 myndum í fullri lengd frá 61 landi. Þar að auki er sýndur fjöldi stuttmynda og sérstök barnadagskrá. Af myndum hátíðarinnar eru 41 Norðurlandafrumsýningar, átta Evrópufrumsýningar og tólf heimsfrumsýningar. 

Hátíðin leggur sig fram við að velja verk kvenna í dagskránna og eru 46 prósent kvikmyndanna eftir kvenkyns leikstjóra í ár. Það vakti líka athygli blaðamanns að aldrei hafa fleiri Íslenskar kvikmyndir verið sýndar á RIFF. RIFF frumsýnir sjö íslenskar myndir í fullri lengd sem telst vera met, í flokknum Ísland í sjónarrönd. Opnunarmynd flokksins er Wolka, síðasta mynd leikstjórans Árna Óla Ásgeirsson, sem féll frá á árin,u en honum til heiðurs verða sérstakar sýningar á höfundarverki hans.

Upplýsinga- og gestastofa RIFF í ár er í gamla Geysishúsinu á Aðalstræti.RIFF

Heiðurgestir hátíðarinnar eru fjórir eins og komið hefur fram síðustu daga. Heiðursgestirnir í ár eru tónlistarkonan Debbie Harry (Blondie), danska leikkona Trine Dyrholm, norski leikstjórinn Joachim Trier, og franski leikstjórinn Mia Hansen-Løve. Svo verður minningardagskrá um tvo kæra vini hátíðarinnar, þá Dimitri Eipides, fyrrum dagskrárstjóra RIFF, og Árna Óla Ásgeirsson, kvikmyndaleikstjóra, sem féllu frá á þessu ári.

Vel heppnuð RIFF HEIMA

Framkvæmdastjóri RIFF tilkynnti stolt að RIFF HEIMA verður aftur í boði í ár, svo þeir sem ekki eiga heimangengt, búa á landsbyggðinni eða eru í fangelsi, á sjúkrahúsi eða annars staðar, geta nú horft á RIFF myndir án þess að mæta í Bíó Paradís þar sem flestar sýningarnar fara fram, fyrir utan sérviðburði eins og til dæmis í bílabíó, bíó í helli, sýning ofan í sundlaug og í Hörpu.

Auglýsingar fyrir RIFF hátíðina má nú sjá um alla borgina.RIFF

Samhliða hátíðinni verður stóri hluti dagskrárinnar aðgengilegur á netinu, í gegnum RIFF HEIMA. Þetta var prófað í fyrsta skipti á síðasta ári vegna heimsfaraldursins og þar sem þetta fékk svo jákvæð viðbrögð var ákveðið að endurtaka leikinn í ár. 

Auk bílabíós, hellabíós, sundbíós og tónleikasýningar á Joker eru margir fleiri sérviðburðir á dagskrá. Í flokknum Nýjasta tækni og kvikmyndir, verða á boðstólnum spennandi nýjungar í kvikmyndagerð, sýndarveruleika, gagn auknum veruleika og tölvuleikjum. Saga Borgarættarinnar, fyrsta kvikmyndin sem tekin er upp á Íslandi, er sýnd í nýrri endurbættri útgáfu og tónlistarkonan Björk þeytir skífum á Hannesarholti, svo eitthvað sé nefnt.

Átta myndir keppa um gullna lundann

Keppnisflokkur hátíðarinnar nefnist Vitranir. Eins og komið hefur fram hér á Vísi keppa þar  átta kvikmyndir eftir upprennandi höfunda um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Um er að ræða fyrsta eða aðra mynd höfunda og þannig er þetta mikil hvatning fyrir upprenandi kvikmyndahöfunda. Verðlaunin hafa verið veitt frá 2005 og leggur hátíðin á þennan máta áherslu á framsækna og unga kvikmyndagerðarmenn. Jafnt kynjahlutfall er meðal leikstjóra flokksins. 

Aðrir rótgrónir dagskrár flokkar eru Fyrir opnu hafi, Heimildarmyndir og Önnur framtíð. Myndir þessa flokka eiga það sammerkt að vera splunkunýjar, margar hverjar voru frumsýndar á fremstu kvikmyndahátíðum veraldar, í Cannes, Feneyjum, Tribeca, Toronto meðal annars og endurspegla það besta sem alþjóðleg kvikmyndagerð hefur uppá að bjóða. Aðra framtíð skipa heimildarmyndir sem einblína á samfélagslega mikilvæg málefni eins og umhverfismál, hinsegin mál og jafnréttisbaráttu. Einnig eru veitt verðlaun í þeim flokki. Þess má geta að 80 prósent mynda í flokknum eru eftir kvenkyns leikstjóra.

Á fundinum í dag var talað um  að um tíu prósent þjóðarinnar mæti á RIFF á hverju ári, ef horft er á fjölda gesta.RIFF

Dómnefndir hátíðar í ár: 

  • Vitranir: Yorgos Krassakopoulos, Trine Dyrholm, leikkona, Gagga Jóns, Anita Briem, Gísli Örn Garðarsson. 
  • Önnur framtíð: Guillaume Calop, Marie Zeniter, Silja Hauksdóttir. 
  • Alþjóðlegar stuttmyndir: Sonja Wyss, Ninna Pálmadóttir, Óskar Páll . 
  • Íslenskar stuttmyndir: Nathalie Mierop, Þóra Björg Clausen, Anton Máni Svansson.
  • Gullna eggið: Vincent Boy Kars, Halldóra Geirharðsdóttir, Rúnar Rúnarsson. 
  • Dómnefnd unga fólksins, skipuð í fyrsta sinn á RIFF.: Markús Loki Gunnarsson, Sigtýr Ægir Kárason, Snædís Björnsdóttir, Katla Gunnlaugsdóttir, Kolbrún Óskarsdóttir.

Alla umfjöllun Lífsins um RIFF í ár má finna HÉR á Vísi. 


Tengdar fréttir

Myndirnar sem keppa um Gullna lundann á RIFF í ár

„Átta splunkunýjar myndir keppa um Gullna lundann, aðalverðlaun RIFF í ár. Myndirnar koma frá átta löndum, og er umfjöllunarefni þeirra og efnistök einstaklega spennandi í ár,“ segir í tilkynningu frá RIFF






Fleiri fréttir

Sjá meira


×