Þetta herma heimildir Fótbolti.net. Hermann hefur stýrt Þrótti Vogum undanfarin misseri. Hann stýrði liðinu upp úr 2. deildinni nýverið en nú virðist sem hann muni ekki stýra liðinu í Lengjudeildinni þar sem hann gæti verið að taka við uppeldisfélagi sínu ÍBV.
Hermann stýrði ÍBV sumarið 2013 en þá var hann spilandi þjálfari. Síðan þá hefur Hermann farið til Indlands þar sem hann var aðstoðarþjálfari Kerala Blasters, einnig var hann aðstoðarmaður Sol Campbell hjá Southend United áður en hann tók við Þrótti Vogum í júlí á síðasta ári.
Þá er Hermann í dag aðstoðarmaður Davíðs Smára Jónssonar í U-21 árs landsliði karla.
Helgi Sigurðsson stýrði ÍBV upp úr Lengjudeildinni í sumar en liðið endaði í 2. sæti eftir erfiða byrjun. Hann hefur ákveðið að halda ekki áfram með liðið og ljóst að Eyjamenn eru í leit að nýjum þjálfara.
Sigurvin Ólafsson (aðstoðarþjálfari KR og þjálfari KV), Jón Þór Hauksson (Vestri) og Rúnar Páll Sigmundsson (Fylkir) hafa verið orðaðir við stöðuna en nú virðist sem Hermann sé á leið til Eyja á nýjan leik.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.