Erlent

Kol­a­skort­ur og raf­magns­leys­i Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Stór hluti orku í Kína er framleiddur með því að brenna kol.
Stór hluti orku í Kína er framleiddur með því að brenna kol. AP/Olivia Zhang

Verksmiðjum hefur verið lokað vegna orkuskorts í Kína sem hefur einnig náð til heimila í norðausturhluta landsins. Meðal annars hefur verksmiðjum fyrirtækja eins og Apple og Tesla verið lokað en orkuskorturinn hefur meðal annars verið rakinn til skorts á kolum.

Sá skortur, auk mikillar eftirspurnar og hertra reglugerða varðandi losun gróðurhúsalofttegunda hefur leitt til mikillar verðaukningar.

Í frétt Reuters segir að ráðamenn hafi byrjað að takmarka notkun rafmagns á háannatíma í norðausturhluta landsins í síðustu viku. Íbúar borgarinnar Changchun hafa sagt fjölmiðlum í Kína að síðan þá hafi rafmagnsleysið orðið verra.

BBC segir að í yfirlýsingu frá einu orkufyrirtæki á svæðinu hafi því verið haldið fram að þetta ástand myndi vara til næsta vors og að rafmagnsleysi yrði brátt reglulegt. Sú yfirlýsing var þó fjarlægð af netinu.

Þá hafa borist fregnir af því að 23 starfsmenn verksmiðju í Liaoning hafi verið fluttir á sjúkrahús vegna eitrunar, eftir að lofthreinsibúnaður þeirra hætti að virka. Sömuleiðis hafa borist fregnir af því að fólk hafi verið flutt á sjúkrahús eftir að það kveikti elda í illa loftræstum herbergjum til að halda á sér hita. Þá hafi íbúar háhýsa neyðst til að nota stiga til að komast heim til sín þar sem lyftur hafi ekki virkað vegna rafmagnsleysis.

BBC vitnar einnig í myndbönd og færslur af samfélagsmiðlum í Kína sem sýni að slökkt hafi verið á götulýsingu í Shenyang.

Orkustofnun Kína hefur skipað kola og jarðgass-fyrirtækjum að tryggja að nægjanlegar birgðir verði til fyrir veturinn svo hægt verði að kynda heimili á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×