Argentína er enn á rauðum lista bresku ríkisstjórnarinnar, en það þýðir að leikmennirnir þurfa að fara í tíu daga sóttkví við komuna aftur til Englands.
Nýjar sóttvarnarreglur í Argentínu gera þeim þó kleift að ferðast til heimalandsins án þess að fara í sóttkví við komuna þangað, ef þeir eru bólusettir og sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf.
Martinez, Lo Celso og Romero þurftu að fara í sóttkví í síðasta mánuði eftir að hafa tekið þátt í landsliðsverkefni með argentínska landsliðinu, ásamt Emiliano Buendia, samherja Martinez hjá Aston Villa. Lo Celso og Romero fóru þó gegn tilmælum Tottenham, en liðið hafði ekki gefið þeim leyfi til að fara.
Argentínska landsliðið leikur gegn Paragvæ, Úrúgvæ og Perú, en leikirnir fara fram dagana 8. til 15. október. Bæði Tottenham og Aston Villa eiga leiki í ensku úrvalsdeildinni helgarnar 16. og 17. október og 23. og 24. október og myndu þessir leikmenn missa af þeim leikjum þar sem að þeir væru í sóttkví.
Þá á Tottenham einnig leik í Sambandsdeild Evrópu þann 21. október og því gætu Lo Celso og Romero misst af þremur leikjum fyrir Lundúnaliðið.