Fótbolti

Guðný spilaði allan leikin er tíu leikmenn AC Milan héldu út gegn Napoli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðný Árnadóttir og stöllur hennar í AC Milan unnu frækin útisigur á Napoli í dag.
Guðný Árnadóttir og stöllur hennar í AC Milan unnu frækin útisigur á Napoli í dag. Jonathan Moscrop/Getty Images

Guðný Árnadóttir var í byrjunarliði AC Milan sem heimsótti Napoli í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en Guðný snéri aftur til Milan í sumar eftir lánsdvöl hjá Napoli. AC Milan lék allan seinni hálfleikinn manni færri, en unnu að lokum góðan 1-0 sigur.

Eleonora Goldoni fékk tækifæri til að koma heimakonum í Napoli í forystu af vítapunktinum strax á áttundu mínútu eftir að Laia Codina braut af sér innan vítateigs. Goldoni klikkaði þó á spyrnunni.

Á 24. mínútu kom Sara Bjorgum Andersen AC Milan í 1-0 forystu og Valentina Giacinti hefði getað tvöfaldað forskot gestanna á 41. mínútu, en eins og andstæðingur sinn, klikkaði hún á vítaspyrnu.

Þegar um tvær mínútur voru til hálfleiks fékk Laia Codina að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt, en hún hafði fengið fyrra spjaldið þegar hún gaf vítaspyrnu snemma leiks.

AC Milan þurfti því að spila seinni hálfleikinn með aðeins tíu leikmenn á vellinum.

Það kom þó ekki að sök og Guðný og liðsfélagar hennar fögnuðu góðum 1-0 sigri

AC Milan er nú í þriðja sæti með 12 stig eftir fimm umferðir, en liðið tapaði fyrsta leik tímabilsins og hefur nú unnið fjóra í röð.

Gömlu félagar Gunýjar eru hins vegar í áttunda sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×