Samkvæmt frétt The Telegraph ætla nýir eigendur Newcastle United að eyða rúmum 190 milljónum punda í janúar. Nýir eigendur félagsins eru þeir ríkustu í heimi en félagið getur þó ekki eytt endalaust sökum reglna UEFA um fjárhagslega háttvísi.
Hvort kostnaður nýs þjálfara sé inn í þessari tölu sem talið er að Newcastle ætli og geti eytt í janúar er óvíst en ljóst er að það kostar 8 milljónir punda að sparka Steve Bruce, þjálfara liðsins. Þá er kostnaður varðandi nýjan þjálfara ekki tekinn með inn í myndina.
Day one of Newcastle's Saudi revolution:
— Telegraph Sport (@TelegraphSport) October 8, 2021
- Premier League backlash
- Steve Bruce's 8m pay off
- Shearer ready to accept ambassadorial offer
- McParland in line for consultancy role
Report by @Tom_Morgs @LukeEdwardsTele @TelegraphDucker @ben_rumsby https://t.co/0jX4Fo0X1E #NUFC
Bruce virðist vita að starf hans hangi á bláþræði en hann hefur viðurkennt að hann óttast það að vera rekinn hvað á hverju. Ef hann fær sparkið nú í landsleikjahléinu mun Graeme Jones, sem var aðstoðarmaður enska landsliðsins á EM í sumar, stýra liðinu gegn Tottenham Hotspur næsta sunnudag.
Samkvæmt Telegraph hefur ekki verið tekin ákvörðun hver næsti þjálfari liðsins verður.
Það er ljóst að það stefnir í töluverðar breytingar hjá Newcastle, innan vallar sem utan. Alan Shearer – goðsögn hjá félaginu - hefur boðið fram krafta sína. Hann er tilbúinn að taka við sendiherrahlutverki hjá Newcastle en Shearer ku hafa verið mjög ánægður með yfirtöku Sádanna.
Frank McParland, fyrrum yfirnjósnari Liverpool, verður að öllum líkindum ráðgjafi stjórnar félagsins varðandi leikmannakaup og fleira því tengdu. Hinn 63 ára gamli McParland mun spila stórt hlutverk í mögulegum kaupum félagsins í janúar. Ásamt því að hafa starfað fyrir Liverpool hefur hann einnig unnið fyrir Brentford, Burnley, Rangers og Nottingham Forest.
Þar sem Newcastle skilaði hagnaði upp á 38 milljónir punda á síðustu þremur árum getur félagið eytt rúmlega 190 milljónum punda í janúar án þess að brjóta reglur um fjárhagslega háttvísi.
Þar sem liðið hefur ekki enn unnið leik þegar sjö umferðir eru búnar af ensku úrvalsdeildinni má reikna með að þeirri upphæð verði eytt til þess að tryggja að liðið haldi sæti sínu í deildinni.