Lögreglan í Kongsberg fékk ábendingu um mann vopnaðan boga og örvum fyrr í dag. Samkvæmt norska ríkisútvarpinu skaut maðurinn upphaflega á fólk í Coop-verslun í vesturhluta bæjarins. Árásarmaðurinn hélt síðan áfram inn í miðbæinn en lögregla vinnur að því að kortleggja ferðir hans.
Mikill viðbúnaður lögreglu var á svæðinu og var vesturhluta bæjarins lokað. Íbúar voru beðnir um að halda sig heima og ringulreið greip um sig meðal bæjarbúa. Herinn kom til aðstoðar auk þyrla og fjölda sjúkrabíla.

Lögreglu tókst að handsama manninn eftir nokkur átök og hefur hann verið færður á lögreglustöðina í Drammen. Maðurinn er sagður hafa verið einn að verki.
Vegna árásarinnar hafa yfirvöld í Noregi tekið þá ákvörðun um að lögreglumenn í Noregi beri á sér skotvopn næstu daga, sem varúðarráðstöfun. Líkt á Íslandi eru lögreglumenn í Noregi alla jafna ekki vopnaðir byssum.
Biðja Íslendinga í Kongsberg um að láta vita af sér
Utanríkisráðuneytið biður Íslendinga í Kongsberg um að láta aðstandendur vita um stöðu mála hjá þeim, en hafa samband við borgaraþjónustuna ef aðstoðar er þörf.