Í skýrslunni, sem ber heitið Gagnsæi í loftslagsmálum, er því spáð að losun koltvísýrings verði fjögur prósent meiri á þessu ári á meðal tuttugu ríkustu landa heims eftir að losunin hafði minnkað um sex prósent á síðasta ári, aðallega út af kórónuveirufaraldrinum.
Skýrsluhöfundar búast jafnramt við því að Kínverjar, Indverjar og Argentínumenn fari jafnvel fram úr útblæstrinum eins og hann var árið 2019, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Hálfur mánuður er nú þar til ný loftslagsráðstefna hefst, að þessu sinni í Glasgow, og ljóst er samkvæmt skýrslunni að lítið gengur hjá iðnvæddu þjóðum heims að draga úr losun, sem þær hafa þó fyrir löngu sammælst um að gera.
G20-hópurinn svokallaði, sem skýrslan fjallar um, er ábyrgur fyrir um 75 prósentum af öllum útblæstri í heiminum og því ljóst að þau ríki þurfa sérstaklega að sýna í verki að hægt sé að draga úr losun.