Innlent

Lög­regla hefur enga heimild til þess að loka síðum sem geyma hatur­s­orð­ræðu­efni

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Lögregla hefur enga heimild til þess að haldleggja efni eða loka síðum sem geyma efni sem flokkast undir hatursorðræðu.
Lögregla hefur enga heimild til þess að haldleggja efni eða loka síðum sem geyma efni sem flokkast undir hatursorðræðu. vísir

Lögregla hefur enga heimild til þess að haldleggja efni eða loka síðum sem geyma efni sem flokkast undir hatursorðræðu. Varaþingmaður segir tíma til kominn að endurskoða hatursorðræðuákvæði hegningarlaganna.

Í kvöldfréttum í gær var rætt við tvær ungar konur sem hafa orðið fyrir raisma á Íslandi. Þær eru samamála um að rasismi og þjóðernishyggja sé ekki á undanhaldi.

Finnst þér rasismi vera að aukast á Íslandi?

„Mig langar að segja nei. Mig virkilega langar það en miðað við það hvað þetta er búið að vera augljóst og opinbert síðustu daga og vikur, að minnsta kosti síðan ég komst inn á þing yfir nótt þá hef ég verið að finna rosalega fyrir þessu. En svo aftur á móti þá er þetta hávær minnihluti, við sjáum allan stuðninginn sem við fáum, sjáum allan stuðninginn sem ég hef fengið,“ sagði Lenya Rún.

Lenya Rún Taha Karim.adelina antal

Sjá einnig: Hefur tilkynnt fjölda rasískra skilaboða til lögreglu

Á síðasta ári voru tíu mál skráð í málaskrárkerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem grunur var um brot gegn hatursorðræðuákvæði hegningarlaganna. Það sem af er ári hafa fimm slík mál verið skráð. Sjö þessara samtals fimmtán mála er lokið með því að rannsókn hefur verið hætt. Þrjú málanna eru enn í rannsókn og fimm mál bíða ákvörðunar um framhald. Ekki hefur verið ákært vegna mála sem skráð eru með þessum hætti í málaskrárkerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2020-2021.

Á síðasta ári voru tíu mál skráð í málaskrárkerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem grunur var um brot gegn hatursorðræðuákvæði hegningarlaganna. Það sem af er ári hafa fimm slík mál verið skráð. Ragnar Visage

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur lögregla enga heimild til þess að að loka eða haldleggja síður með efni sem flokkast sem hatursorðræða. Slíka heimild vantar í lögin.

„Heimildir í þessa veru eru í nýlega samþykktum lögum um íslensk landshöfuðslén, en þar er heimild fyrir lögreglu til þess að loka íslenskum síðum í tilvikum þar sem efni er miðlað sem varðar við hegningarlög. Þar sem brot gegn ákvæðum 233. gr. a. varða við sektum eða fangelsi allt að tveimur árum á þessi grein ekki við þar sem skilyrði þess að henni verði beitt er að refsing vegna meints brots varði allt að sex ára fangelsi eða meira. Öðrum heimildum lögreglu til lokunar eða haldlagningar skráðra léna er ekki til að dreifa,“ segir í skriflegu svari frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lagabreyting þurfi að eiga sér stað

Flest skilaboða sem stelpurnar fá send eru nafnlaus. Lenya segir samfélagsmiðla greiða leið fyrir nafnlausan áróður og telur tímabært að endurskoða hatursorðræðuákvæði hegningarlaganna.

„Já klárlega. Það þarf einhver lagabreyting að eiga sér stað. Mér finnst svolítið skrítið að það sé ekki verið að gera neitt í þessu eins og staðan er núna. Ég er ekki búin að sjá neitt inni á Alþingi og ég er ekki búin að sjá neitt af hálfu stjórnvalda. Ég er ekki heldur að sjá neina fræðslu í skólum,“ sagði Lenya Rún.

„Léttara fyrir fólk að vera rasískt í dag“

„Núna finnst mér mun léttara fyrir krakka sem ég þekki ekki neitt að senda eitthvað á mig með engu nafni og ég veit ekkert hver þetta er. Það er mjög óþægielgt að vita það að það sé mun léttara fyrir fólk að vera rasískt í dag en það var fyrir nokkrum árum,“ sagði Valgerður Reynisdóttir.

Valgerður Reynisdóttir.adelina antal

Hvað vilt þú segja við þá sem halda því fram að það sé enginn rasismi á Íslandi?

„Ég myndi segja að það ætti að hlusta á okkur sem verðum fyrir rasisma,“ sagði Lenya Rún.

„Mér finnst það mjög ljótt að þið séuð að draga úr upplifunum fólks þegar það er að segja frá rasisma. Það að gefa í skyn að það sé enginn rasismi er að gera það að verkum að þið eruð að loka á raddir fólks,“ sagði Valgerður.

„Það er svo auðvelt að segja að Ísland sé algjör jafnréttisparadís og að við séum svo framarlega þegar kemur að því að takast á við þessi erfiðu mál, en ef við hlustum á þessu jaðarsettu hópa sem um ræðir, við höfum aðra sögu að segja og það þarf bara að hlusta á okkur og tala við okkur,“ sagði Lenya Rún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×