Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá L'Anse aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands en staðsetning fornleifanna þar þykir ríma vel við lýsingar Íslendingasagna á leiðöngrum til lands sem kallað var Vínland. Rústirnar þar eru raunar þær einu í Norður-Ameríku þar sem ótvíræðar sannanir liggja fyrir um veru norrænna manna í kringum árið 1000.

Svæðið er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og safnið þar sýnir muni sem norrænir menn skildu eftir sig. Þegar við heimsóttum staðinn fyrir sex árum, vegna þáttanna um Landnemana, sagði safnstjórinn okkur að þetta væri einn af merkustu stöðum mannkynssögunnar. Það hafi verið þarna sem hringurinn lokaðist í könnunarsögu mannsins um jörðina. Ekki léki nokkur vafi á því að tóftirnar væru frá tíma Vínlandsferðanna.

„Það var fullsannað að þetta væru norræn hús. Byggingartæknin er norræn og munirnir styðja það,“ sagði Dale Wells, forstöðumaður safnsins, sem rekið er á vegum þjóðgarða Kanada.
„Kolefnagreining sýnir að þau eru um 1000 ára gömul,“ sagði hún.

Tóftirnar voru áður taldar leifar indíánabyggðar þar til norsku hjónin og fornleifafræðingarnir Anne Stine og Helge Ingstad hófu að rannsaka þær árið 1960 og sýndu fram á norrænan uppruna þeirra.
Einn af fornleifafræðingunum sem rannsökuðu tóftirnar, Svíinn Birgitta Wallace, telur raunar að þetta séu búðirnar sem Leifur Eiríksson reisti.
„Ég held að það hafi verið Leifur sem gerði það.“

Staðháttalýsingar Vínlandssagna pössuðu við staðinn.
„Lýsingarnar í Vínlandssögum, einkum í Hauksbók, fara nákvæmlega saman við staðhætti í L'Anse aux Meadows,“ sagði Birgitta Wallace.
Hún er einmitt í hópi tólf vísindamanna sem í vísindaritinu Nature birtu í gær enn sterkari sönnun; nákvæma aldursgreiningu sem sýnir að norrænir menn hjuggu viðarbúta með járnáhöldum á þessum stað árið 1021.

Það passar einnig vel við sögurnar af ferðum Leifs heppna, Þorfinns karlsefnis, Guðríðar Þorbjarnardóttur og fleiri leiðöngrum, sem eru taldir eru hafa verið farnir á um tuttugu ára tímabili eftir árið 1.000.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: