Verðlaunin eru árleg og er ákveðið þema við hverja verðlaunaafhendingu. Að þessu sinni var þemað spilling.
Jóhannes hætti störfum hjá Samherja í desember 2016. Hann segist hafa hætt en forsvarsmenn fyrirtækisins segja hann hafa verið rekinn fyrir að misfara með fé og óforsvaranlega hegðun. Í kjölfar starfslokanna uppljóstraði hann um starfsemi Samherja í Namibíu og veitti Wikileaks mikið magn gagna, sem fengu nafnið Fishrot Files.
Gögnin varpa ljósi á það sem fram kom í umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um Samherjamálið í byrjun nóvember; hvernig Samherji eigi að hafa beitt sér með ólöglegum og ólögmætum hætti til að sölsa undir sig gjöful fiskimið undan ströndum Namibíu.
Í ræðu sinni er hann tók við verðlaununum í dag sagðist Jóhannes þakklátur og sagði að verðlaunin og viðurkenningin hefðu mikla þýðingu fyrir sig persónulega og þá sem standa við bakið á honum. Það væri ekki algengt að uppljóstrarar fengu verðlaun sem þessi.
Hér að neðan má sjá þegar Jóhannes fékk verðlaunin, ræðu hans og svör við spurningum um það sem hann gerði. Meðal þess sem hann sagði í svörum sínum var að hann vildi sjá Samherja endurgreiða namibísku þjóðinni.