Eyþór er í viðtali á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Í viðtalinu fer hann meðal annars yfir eignarhald á hluti sínum í Mogganum. Þar segir Eyþór að hann hafi engin afskipti af miðlum Árvakurs. Hlutur hans í Árvakri hafi lengi verið til sölu en lítil sé eftirspurnin. Þar spili líklega inn í að afkoma Árvakurs hefur verið neikvæð undanfarin ár.
„Hlutur minn í Mogganum hefur rýrnað á hverju ári, því miður. Ég átti þennan hlut áður en ég fór í borgarpólitíkina en um leið og ég fór þangað sagði ég mig úr stjórn Árvakurs og hef engin afskipti þar,“ segir Eyþór í viðtalinu.
Samherji afskrifaði stóran hluta lánsins
Borgarfulltrúinn segir að hlutur hans í blaðinu sé margskráður og þar af leiðandi líklega eitt verst geymda leyndarmálið í íslenskri pólitík. Aðalatriðið sé að hagsmunir sem þessir fari ekki leynt.
Fréttastofa hefur áður greint frá því að stór hluti láns Samherja vegna kaupa á bréfunum hafi verið afskrifaður. Stundin hélt því meðal annars fram á sínum tíma að um sýndarviðskipti væri að ræða þar sem félag Eyþórs hafi tekið við hlutabréfum Samherja án þess að hafa greitt fyrir bréfin.
„Ég er ekki með neinar beinagrindur í skápnum. Ég keypti hlutabréf í Árvakri af Samherja fyrir fjórum árum síðan. Ég skulda þeim ekki neitt og þeir mér ekkert heldur. Hlutabréfin hafa orðið verðlítil eins og í öðrum frjálsum fjölmiðlum og því eðlilegt þegar hlutabréfin séu færð niður þegar taprekstur er ár eftir ár,“ segir Eyþór við Fréttablaðið.