Hafa skuldabréfin þegar verið seld til innlendra fagfjárfesta og er uppgjör viðskiptanna fyrirhugað þann 15. nóvember með hefðbundnum fyrirvörum um endanlega skjalagerð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÚR.
Gefnir verða út tveir skuldabréfaflokkar - UR 151124 sem eru óverðtryggð skuldabréf til þriggja ára að fjárhæð 1.360 milljónir króna með 5,3% ávöxtunarkröfu og UR 151128 sem eru verðtryggð skuldabréf til sjö ára að fjárhæð 5.680 milljónir króna með 2,5% ávöxtunarkröfu. Unnið verður að skráningu skuldabréfaflokkanna á aðalmarkað Nasdaq Iceland.
„ÚR er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur áherslu á arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Með stefnumótandifjárfestingum í aflaheimildum og traustum sjávarútvegsfyrirtækjum hefur félagið byggt upp eignir að verðmæti um 430 milljónir evra. Eiginfjárhlutfall félagsins er sterkt – um 57%. Rekstur félagsins er í dag þríþættur. Í fyrsta lagi er ÚR hefðbundið íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki, sérhæft í rekstri frystitogara. Í öðru lagi er félagið stærsti hluthafinn í Brim hf. sem er annað skráða sjávarútvegsfélagið á Íslandi og í þriðji lagi vinnur félagið að nýsköpun og vöruþróun í sjávarútvegi í gegnum dótturfélagið ÚR Innovation. Tilgangur skuldabréfaútgáfunnar núna er að treysta og efla fjármögnun félagsins til framtíðar,“ segir í tilkynningu frá ÚR.
Arctica Finance hefur umsjón með sölu og skráningu skuldabréfaútgáfanna fyrir hönd Útgerðarfélags Reykjavíkur.
„Við hjá ÚR erum gríðarlega stolt og ánægð með viðtökurnar á meðal fagfjárfesta vegna skuldabréfaútgáfunnar. Viðbrögðin sýna að fjárfestar treysta vel rekstri félagsins og að innlendur fjármálamarkaður hefur trú á íslenskum sjávarútvegi og á starfsfólki, stjórnendum, stjórn og eiganda ÚR,“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR.