Innlent

Nítján leitað til neyðarmóttöku kynferðisofbeldis vegna hópnauðgana

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flestir þeirra sem leituðu á neyðarmóttökuna í fyrra voru á aldrinum 18 til 25 ára.
Flestir þeirra sem leituðu á neyðarmóttökuna í fyrra voru á aldrinum 18 til 25 ára.

Nítján hafa leitað til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis vegna hópnauðgana það sem af er ári. Árið 2020 leituðu þrettán einstaklingar til móttökunnar og sex árið 2019.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Þar er haft eftir Hrönn Stefánsdóttur, hjúkrunarfræðingi og verkefnastjóra á neyðarmóttökunni, að um sé að ræða ógnvænlega þróun. Hún segir dæmi um að aðrir standi hjá og fylgist með ofbeldinu.

Það sem af er ári hefur 131 leitað til neyðarmóttökunnar, samanborið við 130 allt árið í fyrra. Aðeins 43 mál hafa verið kærð til lögreglu.

Að sögn Hrannar eru tengsl milli þolanda og geranda ein af ástæðum þess að fá mál enda hjá lögreglu en tilvik þar sem kynferðisbrot var framið af vini eða kunningja voru 61 í fyrra, samanborið við 49 árið 2019.

„Svo er oft spurt að því úti í samfélaginu af hverju fólk kærir ekki eða fer „réttu leiðina“; hún er bara ekkert mjög auðveld. Jafnvel þó að fólk kæri eru ekki nema 12 til 20 prósent sem fara í ákæru; það er verið að fella niður mál þó að fólk hafi farið allar réttu leiðirnar,“ segir Hrönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×