Heimakonur höfðu yfirhöndina í upphafi leiks og voru mest átta stigum yfir eftir tæplega sjö mínútna leik. Staðan að fyrsta leikhluta loknum var 24-16, Snæfellingum í vil.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og liðin skiptust á að skora. KR-ingar minnkuðu muninn lítillega og þegar gengið var til búningsherbergja höfðu heimakonur sex stiga forskot, 42-36.
Gestirnir í KR skoruðu átta af fyrstu tíu stigum seinni hálfleiks og jöfnuðu leikinn í 44-44 þegar þriðji leikhluti var rétt tæplega hálfnaður. Snæfellingar fóru þó með eins stigs forystu inn í lokaleikhlutann, 55-54.
Mikil spenna ríkti í lokaleikhlutanum og liðin héldust í hendur lengi vel. Þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka var allt jafnt 67-67 og spennandi lokamínútur framundan.
Snæfellingar skoruðu þá fimm stig í röð og staðan var orðin 72-67 þegar rétt rúm mínúta var eftir. Það reyndist of stórt bil fyrir KR-inga og heimakonur unnu því góðan sex stiga sigur, 79-73.