Rannsóknin á Trump og fyrirtæki hans hefur nú staðið yfir í meira en tvö ár. Hún beinist að því hvort að Trump hafi blekkt banka og skattayfirvöld um raunveruleg verðmæti eigna fyrirtækisins. Hann hafi ýmist ýkt virði þeirra til að fá hagstæðari lán eða gert lítið úr þeim til að komast hjá skattgreiðslum.
Allen Weisselberg, fjármálastjóri Trump-fyrirtækisins til margra ára, hefur þegar verið ákærður í tengslum við rannsóknina. Hann er sakaður um skattsvik og að fela sporslur sem hann hlaut frá fyrirtækinu.
AP-fréttastofan segir að saksóknararnir íhugi nú að gefa út fleiri ákærur. Í því skyni hafi þeir kallað saman ákærudómstóll. Slíkir dómstólar eru nokkurs konar kviðdómar sem taka afstöðu til hvort að efni standi til að gefa út ákærur í málum. Þetta er annar ákærudómstóllinn sem þeir kalla til við rannsóknina.
Saksóknarar svæðissaksóknarans í New York vinna með dómsmálaráðherra ríkisins að rannsókninni. Washington Post segir að skipan ákærudómstólsins nú þýði ekki endilega að fyrirtæki Trump eða stjórnendur þess verði ákærðir.