Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow á að ljúka um helgina. Forseti ráðstefnunnar birti sjö blaðsíðna drög að samkomulagi snemma í morgun. Öll aðildarríki rammasáttmála SÞ um loftslagsbreytingar þurfa þó að samþykkja slíkt samkomulag eða yfirlýsingu samhljóða.
Í drögunum eru ríki heims hvött til að uppfæra svonefnd landsmarkmið sín um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda þannig að þau samrýmist markmiðum Parísarsamkomulagsins fyrir lok árs 2022. Markmið þess er að takmarka hlýnun jarðar við 2°C á þessari öld og helst við 1,5°C sé þess nokkur kostur.
Miðað við núverandi losunarmarkmið ríkjanna 197 sem eiga aðild að samningnum stefnir í að hlýnunin verði töluvert meiri, um 2,4°C miðað fyrir tímabilið fyrir iðnbyltingu samkvæmt greiningu Climate Action Tracker (CAT), óháðs hóps vísindamanna.
„Jafnvel með þeim nýju loforðum fyrir 2030 í Glasgow munum við losa gróflega tvöfalt meira árið 2030 en þarf til að ná 1,5°C markmiðinu. Þess vegna verða allar ríkisstjórnir að endurskoða markmið sín,“ sagði í greiningunni.
Hætti niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti og ríkari þjóðir styðji þær snauðari
Kallað er eftir því í fyrsta skipti að ríkin hætti smám saman niðurgreiðslum á kolum og jarðefnaeldsneyti. Breska ríkisútvarpið BBC segir að ekkert sé sett um tímaramma eða markmið í þeim efnum í samkomulagsdrögum Breta. Þá er óljóst hvort að klausan lifi af og komist inn í endanlega útgáfu samkomulagsins.
Einnig er kveðið á um að ríkari þjóðir geri meira til að hjálpa þeim snauðari að aðlagast loftslagsbreytingum. Þrátt fyrir að heimtur hafi gengið illa á þeim hundrað milljörðum dollara sem iðnríki lofuðu að veita þeim fátækari fyrir árið 2020 er lagt til að upphæðin verði hækkuð frá og með 2025.
Reuters-fréttastofan segir að samninganefndir aðildarríkjanna setjist niður í dag og reyni að ná samstöðu um lokatexta samkomulagsins sem hægt verði að skrifa undir um helgina.

Ýmsir minni samningar þegar samþykktir
Þrátt fyrir að ýmsir aðgerðasinnar og stjórnmálamenn hafi lýst því yfir að loftslagsráðstefna SÞ sé gagnslaus undanfarna daga hafa ýmsir samningar verið undirritaðir á henni fram að þessu.
Þannig hafa leiðtogar fleiri en hundrað ríkja sæst á að binda enda á og snúa við eyðingu skóga fyrir árið 2030, þar á meðal Brasilía þar sem verulega hefur verið gengið á Amasonfrumskóginn.
Bandaríkin og Evrópusambandið kynntu samkomulag um að draga úr losun metans, gróðurhúsalofttegundar sem er enn máttugri en koltvísýringur en skammlífari í lofthjúpnum, fyrir árið 2030. Talað hefur verið um að samdráttur í losun metans sé ein skilvirkasta leiðin til að draga hratt úr hnattrænni hlýnun.
Fleiri en fjörutíu ríki skrifuðu einnig undir samning um að hætta að brenna kolum, en þó ekki stórveldi eins og Kína og Bandaríkin sem eru á meðal mestu kolaháka heimsins.