Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar en atvinnuleysi mældist 12,8% í janúar á þessu ári. Stofnunin spáir því að atvinnuleysi muni lítið breytast eða aukast lítils háttar í nóvember vegna árstíðasveiflu og verða á bilinu 5,0% til 5,3%.
Atvinnulausir voru alls 10.083 í lok október, 5.585 karlar og 4.498 konur og fækkaði atvinnulausum körlum um 141 frá septemberlokum og atvinnulausum konum fækkaði um 204.

Atvinnuleysi minnkaði mest í ferðatengdri starfsemi
Lækkun atvinnuleysis er að mestu leyti vegna fækkunar atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu en þar fækkaði um 402 að meðaltali frá fyrri mánuði. Áfram er atvinnuleysi mest á Suðurnesjum eða 9,2% en næst mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem það mælist 5,2%.
Alls höfðu 4.252 atvinnuleitendur verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok október og fækkaði um 346 frá september. Hins vegar voru þeir 3.614 í októberlok 2020. Alls voru 4.069 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok október og fækkaði um 75 frá fyrri mánuði.
Atvinnulausum fækkaði í flestum atvinnugreinum í október frá mánuðinum á undan. Meðal stærstu atvinnugreina fækkaði mest í ferðatengdri starfsemi sem inniheldur ferðaþjónustu ýmiss konar, gistiþjónustu og veitingaþjónustu. Þar fækkaði atvinnulausum um á bilinu 4% til tæp 6%.
Fréttin hefur verið uppfærð.