Innlent

Frost um allt land í dag

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Búast má við að hiti verði um og undir frostmarki víðast hvar í dag.
Búast má við að hiti verði um og undir frostmarki víðast hvar í dag. Vísir/Vilhelm

Búast má við norðan- og norðvestanátt í dag, um fimm til þrettán metrum á sekúndu víðast hvar um landið. Þó verður talsvert hvassara á Austfjörðum, eða allt að 20 metrar á sekúndu. Víða léttskýjað, en þó von á stöku éljum á norðurlandi. Þá má búast við frosti niður í allt að sex stig.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að í nótt munu vindurinn smám saman snúast í suðvestanátt. Á morgun verði nokkuð vætusamt með rigningu eða slyddu og hlýnandi veðri, þó þurrt verði að kalla á Austurlandi.

Eftir helgi megi þá búast við hvassri suðvestanátt með rigningu víða. Minna verði þó um úrkomu á Austurlandi og áfram nokkuð milt veður.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Mánudagur:

Suðvestan 13-20 m/s og rigning, hvassast NV-til og með SA-ströndinni, en úrkomulítið A-lands. Hiti 3 til 8 stig. Hægari og skúrir eða él V-til um kvöldið og kólnar.

Þriðjudagur:

Snýst í norðan 8-13 m/s með snjó- eða slydduéljum á N-verðu landinu og hita kringum frostmark. Suðvestan 8-15 og slydda eða rigning syðra í fyrstu, en síðan norðlægari og léttir til. Hiti 0 til 5 stig.

Miðvikudagur:

Hvöss norðnátt með snjókomu eða éljum í fyrstu, en lægir síðan smám saman og léttir til, fyrst V-lands. Frost 1 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Fimmtudagur:

Ákveðin suðvestlæg átt með snjókomu eða slyddu, en norðlægari um kvöldið. Fremur svalt í veðri.

Föstudagur:

Útlit fyrir norðanáttir með éljum, en léttskýjað sunnan heiða og talsvert frost um land allt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×