Í viðtali við Insider sagði Jeff Bezos, stofnandi Amazon, að hann væri mjög oft spurður að því hvernig hann færi að því að finna jafnvægi á milli heimilis og vinnu.
Bezos er hins vegar ekki hlynntur þeirri skilgreiningu og segist sjálfur ekki hvetja sitt starfsfólk né stjórnendur til að keppast við að finna þetta jafnvægi.
Frekar eigi fólk að stefna að vellíðan og hamingju á báðum stöðum, sem myndar þá eins konar hringrás.
Það sem Bezos meinar með þessu er:
Ef að við erum ánægð og hamingjusöm í einkalífinu, mætum við uppfull af orku og krafti til vinnu. Og ef að við erum ánægð í vinnunni, komum við heim eldhress.
Að hans mati, er það því ákveðin ranghugmynd að hvetja fólk til að finna eitthvað jafnvægi á milli tveggja staða.
Markmiðið snúist um vellíðan á báðum stöðum, því það sé fyrst og fremst hún sem skilar sér.
Nú hugsa eflaust einhverjir að það sé ekkert mál fyrir ríkasta mann í heimi að tala um vellíðan. Hann á nægan pening til þess að gera allt sem honum mögulega gæti dottið í hug og getur auk þess stýrt sinni vinnu öðruvísi en margir þar sem hann er fyrrum forstjóri en nú fyrst og fremst eigandi.
Hið rétta er, að þessi milljónamæringur virðist líka leggja áherslu á að byggja upp sína vellíðan með litlu hlutunum.
Sem eru ókeypis.
Til dæmis er hann þekktur fyrir að gefa sér góðan tíma í að borða morgunmat með fjölskyldunni. Þá stillir hann ekki vekjaraklukkuna á kvöldin, heldur leggur áherslu á að ná nægum svefni þannig að hann þurfi ekki á henni að halda en vakni úthvíldur þegar þarf.
Þá er Bezos sagður verja nokkrum mínútum á dag við að vaska diskana sína upp.