Samningur Aðalsteins, sem er 44 ára gamall, gilti áður fram á næsta sumar. Hann tók við liðinu árið 2020 eftir að hafa verið hjá Erlangen í Þýskalandi, og undir stjórn Aðalsteins varð Kadetten svissneskur bikarmeistari og komst í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.
Á yfirstandandi leiktíð hefur Kadetten aðeins misst af einu stigi í svissnesku deildinni og er liðið þar í efsta sæti auk þess að vera í baráttu um að komast í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar annað árið í röð.
„Við erum með ungan og hungraðan leikmannahóp sem er langt frá því að vera fullþroskaður. Við erum með mjög háleit markmið sem ég vil svo sannarlega ná með liðinu. Það er mjög gaman að vinna með þessu liði og þess vegna hlakka ég til að halda áfram þessu trausta og farsæla samstarfi,“ sagði Aðalsteinn við heimasíðu Kadetten.