Lyfið Sotrovimab er svokallað einstofna mótefni og er framleitt af lyfjafyrirtækinu GlaxoSmithKline. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.
Meðferð með einstofna mótefnum gagnast best þeim sem eru óbólusettir og/eða þeim sem mynda illa mótefni vegna lyfja eða sjúkdóma og er notkunin bundin við upphaf veikinda hjá þeim sem eru í aukinni hættu á að þróa með sér alvarlegan sjúkdóm.
Til að byrja með hefur verið ákveðið að kaupa 72 skammta af lyfinu sem svokallað undanþágulyf og er það væntanlegt er til landsins síðar í þessum mánuði, að sögn ráðuneytisins. Landspítali annast framkvæmd innkaupanna.
Birtu jákvæðar niðurstöður
GlaxoSmithKline birti í gær frumniðurstöður sem benda til að lyfið virki í tilraunaglasi gegn lykilstökkbreytingum sem finna má á nýju omíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Enn á eftir að staðfesta virknina með frekari prófunum.
George Scangos, forstjóri líftæknifyrirtækisins Vir Biotechnology sem vann sömuleiðis að þróun lyfsins segir í tilkynningu að gert hafi verið ráð fyrir því að kórónuveiran kæmi til með að stökkbreytast enn frekar. Því hafi áhersla verið lögð á afmarkað svæði broddpróteinsins sem væri ólíklegra til að stökkbreytast.
Fréttin hefur verið uppfærð.