Leikurinn byrjaði af miklum krafti og sóknarleikur beggja liða var í fyrirrúmi. Það hægðist hins vegar verulega á gestunum í öðrum leikhluta og voru Keflvíkingar átta stigum yfir í hálfleik, staðan 59-51.
Sóknarleikur beggja liða var frekar dapur í þriðja leikhluta en heimamenn þó enn með öll völd á vellinum. Þeir voru komnir sextán stigum yfir áður en fjórði leikhluti hófst og því skipti litlu þó Haukar hafi endað leikinn betur. Keflavík bar sigur úr býtum, 101-92, og er komið í undanúrslit bikarsins.
Dominykas Milka var frábær í liði Keflavíkur, hann skoraði 30 stig og tók 7 fráköst. Þar á eftir kom Calvin Burks með 18 stig. Hjá Haukum skoraði Jeremy Herbert Smith 23 stig ásamt því að gefa 7 stoðsendingar. Shemar Deion Bute kom þar á eftir með 22 stig.