Í Facebook-færslu sem hann birti í gærkvöldi segir Gunnar Smári líklegast að aðstoðarmaður ráðherra hafi lekið upplýsingum úr minnisblaði Þórólfs en fjölmiðlar greindu frá því í gær að sóttvarnalæknir legði til 20 manna fjöldatakmarkanir, 200 manna hólf á fjöldasamkomum og tveggja metra fjarlægðarreglu í stað eins metra.
Eins og þekkt er orðið hefur Þórólfur ekkert viljað tjá sig um efnislegt innihald minnisblaða sinna fyrr en eftir að ráðherra hefur tekið ákvörðun um sóttvarnaaðgerðir og tilkynnt um þær.
„Þetta er þekkt aðferð til að færa til ábyrgð og brjóta upp slæmar fréttir. Án leka hefði Willum mætt á morgun og tilkynnt um 30 manna fjöldatakmarkanir og 300 manna hólf skilgreind á fjöldasamkomum og verið vondi kallinn. Með leka mun Willum koma fram á morgun og tilkynna að hann hafi ákveðið að setja á mildari takmarkanir en Þórólfur lagði til; 30 manna fjöldatakmarkanir og 300 manna hólf skilgreind á fjöldasamkomum. Þá er Þórólfur vondi kallinn en Willum sá mildi. Þórólfur hafði engan hag af því að leka minnisblaðinu, aðeins Willum. Framsóknarstjórnmál snúast aldrei um innihald (nema hvað markmiðið er að auga mennina sem rændu eignum samvinnuhreyfingarinnar) en ætíð um yfirborðsmennsku,“ segir Gunnar Smári.