Handbolti

Leikmenn Íslendingaliðs í Danmörku spiluðu leik með kórónuveirueinkenni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson átti að spila í kvöld en leik GOG hefur verið aflýst. Hér er hann í leik með íslenska landsliðinu.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti að spila í kvöld en leik GOG hefur verið aflýst. Hér er hann í leik með íslenska landsliðinu. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Sjö leikmenn danska handboltalandsliðsins GOG eru smitaðir af kórónuveirunni. Fréttir frá Danmörku herma að leikmenn liðsins hafi spilað veikir í síðasta leik.

Karladeildin í Danmörku er komin í frí vegna fjölda smita í mörgum félögum.

Það hefur ekki farið vel í fólk að heyra af framgöngu GOG í leiknum á móti Kolding um síðustu helgi.

Samkvæmt heimildum Sport Fyn þá fundu nokkrir leikmenn GOG fyrir kvefeinkennum en fengu samt að spila. GOG vann leikinn 35-26.

Nicolej Krickau, þjálfari GOG, staðfesti það að nokkrir leikmanna sinn hafi verið með einkenni.

„Það voru leikmenn sem voru kvefaðir og með flensueinkenni en það voru bara einkenni sem kannski tengdust kórónveirusmiti,“ sagði Nicolej Krickau við DR.

Kasper Jørgensen, íþróttastjóri GOG, segir að félagið hafi ekki gert neitt rangt og að GOG hafi fylgt öllum reglum.

Það voru hins vegar komin upp það mörg smit í GOG í gær að leik liðsins á móti Skanderborg í kvöld hefur verið aflýst.

Íslenski landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson spilar með GOG en hann var í gær valinn í íslensk landsliðshópinn fyrir komandi Evrópumót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×