Ríkisstjórnin kynnti í gær víðtækar samkomutakmarkanir vegna vaxandi útbreiðslu nýjasta afbrigðis kórónuveirunnar hér á landi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri greindi frá því á Facebook síðu sinni í gær að neyðarstjórn borgarinnar hafi fundað eftir að ný reglugerð stjórnvalda hefði verið kynnt. Hann saknaði þess að ekki væru gefin skýr skilaboð um aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að mæta stöðunni fyrir fólk og fyrirtæki.
Dagur segir margvíslegan rekstur þurfa á jólavertíðinni að halda til að rétta úr kútnum. Janúar og febrúar geti orðið mörgum fyrirtækjum erfiðir, ekki síst í veitingarekstri, viðburðahaldi, sviðlist og ferðaþjónustu.

„Mér finnst skipta miklu máli að ríkisstjórn og Alþingi gefi miklu skýrar til kynna að til standi að koma til móts við fólk í þessum aðstæðum og það verði ekki skilið eftir með óvissuna vegna faraldursins yfir hátíðarnar,“ segir borgarstjóri. Skýra þurfi hvaða úrræði verði endurvakin, hverjum framlengt og hverjum ekki.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í gær að stjórnvöld hefðu kveðið skýrt upp úr með að komið yrði til móts við þá sem yrðu fyrir skertum opnunartíma vegna sóttvarnaaðgerða stjórnvalda.
„Nú eru hlutirnir enn og aftur að breytast og ný veira að dreifa sér hraðar en við höfum áður séð. Það kallar sömuleiðis á viðbrögð. Við ætlum bara að vera samkvæm sjálfum okkur í viðbrögðum. Við höfum alltaf brugðist við í samræmi við aðstæður,“ segir Bjarni.
Ríkisstjórnin muni bregðast við ef það þrengdi í búi núna vegna sóttvarnaráðstafana og aðgerða stjórnvalda.
„Þá getur það vel réttlætt að við virkjum að nýju úrræði sem hafa reynst vel.“
Eru hótel þar undir til dæmis?
„Það gæti verið. En nú verðum við aðeins að áskilja okkur rétt til að meta þessa stöðu,“ segir Bjarni Benediktsson.