Þá hefur innlögnum á sjúkrahús fjölgað verulega frá því í nóvember. Í byrjun þess mánaðar voru um 46 þúsund manns á sjúkrahúsi en nú eru þau tæplega 70 þúsund sem liggja á sjúkrahúsi, samkvæmt frétt Washington Post.
Útlit er fyrir að ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar, sem er nú í mikilli dreifingu víða um heim smitist manna á milli töluvert auðveldar en delta-afbrigðið. Samhliða því er þó útlit fyrir að ómíkron valdi minni veikindum.
Sjá einnig: Ómíkron úr einu prósenti í 73 á þremur vikum
Smituðum hefur einnig farið hratt fjölgandi í Suður-Kóreu. Þar var sett met í dag yfir fjölda dauðsfalla. Tilkynnt var í dag að 6.919 hefðu smitast af Covid-19 og að 1.083 væru á gjörgæslu. Það er hærra en nokkru sinni áður.
Yonhap fréttaveitan segir frá því að 109 hafi dáið og sú tala hefur heldur aldrei verið hærri. Í heildina hafa 5.015 dáið vegna faraldursins í Suður-Kóreu.
Ómíkron-afbrigðið er þó ekki orðið ráðandi í Suður-Kóreu en tilkynnt var í dag að 12 hefðu greinst smitaðir af því afbrigði og í heildina hafi 246 tilfelli greinst í landinu.