Hvernig var rekstrarumhverfið á árinu?
„Rekstrarumhverfið var sveiflukennt á árinu. Væntingar í upphafi árs voru hófstilltar enda mikil óvissa vegna Covid, virkni bólusetninga og samkomutakmarkana. Eftir því sem hlutfall bólusettra jókst og ferðamannaiðnaðurinn tók við sér batnaði afkoma félagsins samhliða betri innheimtu leigutekna og hækkun á virðisútleiguhlutfalli. Hækkaði því félagið afkomuspá sína tvisvar á árinu. Þrátt fyrir það eru áhrif faraldursins enn sýnileg á EBITDA félagsins en aftur á móti eru stýrivextir umtalsvert lægri en fyrir upphaf faraldursins og hefur félagið nýtt lágt vaxtaumhverfi til endurfjármögnunar á stórum hluta af skuldum félagsins sem mun þýða lægri vaxtakostnað sem hefur jákvæð áhrif á hagnað félagsins.“
Hvað stóð upp úr?
„Það eru nokkrir hlutir sem standa upp úr á árinu. Viðnámsþróttur þeirra fyrirtækja sem urðu fyrir verulegum skakkaföllum vegna faraldursins var eftirtektarverður en félagið lagði mikið upp úr góðu samstarfi við þau í gegnum mestu erfiðleikana. Félagið endurfjármagnaði umtalsvert af skuldum sínum og lækkaði samhliða verðtryggð kjör sín hressilega. Þá var afkomuspá hækkuð í tvígang vegna betri afkomu en væntingar stóðu til.
Aðlögunarhæfni starfsfólks félagsins að breyttum vinnureglum innanhúss stóð einnig upp úr en félagið hefur ítrekað hreyft til vinnustöðvar til að minnka líkur á mögulegum smitum og sóttkví.“
Hver var helsta áskorunin?
„Helstu áskoranir ársins var að eiga við breytilegar samkomutakmarkanir sem hafði áhrif bæði á leigutaka félagsins og starfsfólk félagsins. Félagið var snöggt að bregðast við, bæði í daglegri starfsemi með því að opna aðra starfsstöð til að tryggja að geta starfað í takt við sóttvarnarlög og í aðstoð við leigutaka sem þurftu sveigjanleika.“
Hvernig lítur árið 2022 út frá ykkar bæjardyrum séð?
„Rekstur fasteigna er í eðli sínu seigfljótandi þannig við eigum von á að rekstur verði með hefðbundnu Covid móti. Við höfum séð aukinn áhuga á eignum félagsins á undanförnum misserum. Væntingar standa til að með auknu vægi örvunarbólusetninga muni samkomutakmarkanir minnka umtalsvert. Gangi það eftir á ég von á að árið sem slíkt verði gott og óskandi að 2022 verði árið sem við lærum að lifa endanlega með veirunni. Við horfum bjartsýn fram á veginn.“
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.