Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að skortur sé á legurýmum auk þess sem hátt í tvö hundruð starfsmenn spítalans séu frá vinnu, ýmist smitaðir af veirunni eða í sóttkví.
Heilbrigðisráðuneyti, Sjúkratryggingar Íslands og forstjórar heilbrigðisstofnana um land allt hafi átt í nánu samstarfi undanfarið til að skapa aðstæður svo kleift sé að taka við sjúklingum af Landspítala.
Það hafi leitt til þess að nú séu samtals þrjátíu rými til reiðu búin á heilbrigðisstofnunum þar sem tekið verði á móti sjúklingum af spítalanum, sem færir eru um flutning en þó ekki útskriftarbærir.
Sjúklingar verða fluttir á þær stofnanir sem best henta hverjum og einum miðað við þarfir sjúklinganna og þjónustunnar sem er í boði á hverjum stað. Þar á meðal eru ellefu rými á endurhæfingarmiðstöðinni í Reykjalundi.