„Mér fyndist ekki vitlaust að stytta hana niður í svona fimm daga vegna þess að það sem við erum að gera með þessu er ósköp einfaldlega að minnka líkurnar á því að smitin breiðist út, en vegna þess hvað þau eru að breiðast mikið út núna, þá finnst mér aðeins of mikið í látið að halda fólki í einangrun í sjö til tíu daga,“ segir Kári.
Kári segir að ómíkron-afbrigðið sé búið að taka yfir, bæði á Íslandi og víða annars staðar í heiminum. Það valdi því að ekki verði pláss fyrir önnur afbrigði veirunnar, eins og til dæmis delta-afbrigðið sem allsráðandi var í sumar, en ómíkron-afbrigðið er síður talið valda alvarlegum veikindum en fyrri afbrigði kórónuveirunnar.
„Það sem að þessi veira er raunverulega að gera er að fylgja lögmálum þróunarfræðinnar. Það er að segja að sú tegund sem fjölgar sér hraðast, hún tekur yfir og þá er ekki pláss fyrir hinar. Þannig að ég held að við getum verið nokkuð viss um að þessari farsótt - af þessari veiru - kemur til með að ljúka tiltölulega fljótlega,“ segir Kári Stefánsson