Kórónuveiran heldur áfram að setja mark sitt á líf okkar allra og enn á ný fer stórmót í handbolta fram þar sem veiran spilar full stóran þátt í undirbúningi og mögulega lokaniðurstöðu mótsins.
Handknattleiksamband Evrópu, EHF, hefur greint frá því að leikmenn sem smitist af veirunni megi ekki snúa aftur á völlinn fyrr en tveimur vikum – 14 dögum – eftir að smit greinist.
Þjálfarateymi sænska landsliðsins, Glenn Solberg og Martin Boquist, segja í viðtali við Aftobladet í Svíþjóð að það sé nær ógerlegt að vinna eftir þessum reglum.
„Ef leikmaður greinist á keppnisstað er mótið úr sögunni,“ sagði Boquist um málið en tvær vikur er langur tími í íþróttum.
Fjöldi liða hefur glímt við smit í sínum leikmannahópum og mæta því ekki fullskipuð til leiks en halda í vonina að leikmenn geti komið inn af krafti eftir að einangrun lýkur.
Nya tuffa regeln då kan handbolls-EM vara över: "Hade varit fruktansvärt"https://t.co/ZB5uT1qKv5
— Sportbladet (@sportbladet) January 4, 2022
„Reglurnar eru mjög strangar og munu gera mörgum erfitt fyrir. Ef leikmaður greinist núna missir hann af öllum þremur leikjunum í riðlakeppninni. Við krossum fingur og reynum að gera okkar besta úr því sem komið er,“ bætti Solberg við.
„Við teljum að þetta geti ekki virkað. Við vitum að margar þjóðir eru í vandræðum sem stendur og það gæti reynst erfitt fyrir EHF að standa við tveggja vikna regluna,“ sagði Boquist að endingu.