Fótbolti

Svava Rós orðuð við AC Milan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Svava Rós Guðmundsdóttir á ferðinni í landsleik gegn Tékklandi þar sem hún skoraði þriðja mark Íslands.
Svava Rós Guðmundsdóttir á ferðinni í landsleik gegn Tékklandi þar sem hún skoraði þriðja mark Íslands. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Íslenska landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttur er orðuð við ítalska knattspyrnufélagið AC Milan. Yrðu þá tvær íslenskar landsliðskonur á mála hjá félaginu en varnarmaðurinn Guðný Árnadóttir er nú þegar í Mílanó.

Á vefnum TuttoMercato var bent á að AC Milan sé í leit að framherja til að fylla skarð stjörnuframherja liðsins, Valentinu Giacinti. Sú lenti upp á kant við þjálfara liðsins og er á leið frá félaginu.

Það var Björn Már Ólafsson, lögfræðingur og fyrrum blaðamaður ásamt því að vera mikill áhugamaður um ítalska knattspyrnu, sem vakti athygli á mögulegum félagaskiptum Svövu Rósar á Twitter-síðu sinni.

Í frétt TuttoMercato segir að AC Milan sé í leit að sóknarþenkjandi leikmanni með landsliðsreynslu. Svava Rós fellur undir þá skilgreiningu en hún á að baki 30 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

Hin 26 ára gamla Svava Rós leikur í dag með Bordeaux í Frakklandien var áður á mála hjá Kristianstad í Svíþjóð og Røa í Noregi. Áður en hún hélt út í atvinnumennsku árið 2018 hafði hún leikið með bæði Val og Breiðabliki hér á landi.

AC Milan er sem stendur í 5. sæti Serie A, ítölsku úrvalsdeildarinnar, með 22 stig eftir 11 leiki. Juventus trónir á toppnum með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×