Belgíski framherjinn var hvergi sjáanlegur er Chelsea og Liverpool gerðu 2-2 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi.
Í aðdraganda leiksins var birt viðtal við Lukaku þar sem hann sagði að hann vildi snúa aftur til Inter Milan og að hann væri ósáttur með leikkerfið sem Thomas Tuchel – þjálfari Chelsea – væri að notast við.
Tuchel brást við með því að taka Lukaku úr hóp í einum af stærri leikjum tímabilsins. Þjálfarinn staðfesti svo fyrr í dag að Lukaku hefði beðist afsökunar á ummælum sínum og yrði í hópnum gegn Tottenham Hotspur í undanúrslitum deildarbikarsins.
Þá hefur Lukaku beðið stuðningsfólk félagsins afsökunar. Það gerði hann í gegnum samfélagsmiðla Chelsea.
„Við stuðningsfólk vil ég segja: Mér þykir leitt að hafa valdið öllum þessum vandræðum. Ég skil að þið séuð ósátt. Nú er það undir mér komið að vinna traust ykkar til baka og sýna mitt besta á hverjum degi,“ sagði Lukaku í viðtali sem birt var á samfélagsmiðlum Chelsea fyrr í kvöld.
„Ég vil einnig biðja þjálfarann, liðsfélagar og stjórn félagsins afsökunar. Ég vonast til að þetta sé nú að baki og ég geti gert mitt besta til að hjálpa liðinu að vinna leiki,“ endaði Lukaku á að segja.
A message from Romelu.
— Chelsea FC (@ChelseaFC) January 4, 2022
Lukaku hefur átt erfitt uppdráttar síðan hann gekk í raðir Chelsea frá Inter í sumar. Alls hefur hann skorað fimm mörk í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og tvö í fjórum leikjum í Meistaradeild Evrópu.