Innlent

Stefnir í spennandi for­manns­slag

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bæði sækjast eftir því að verða næsti formaður Eflingar.
Bæði sækjast eftir því að verða næsti formaður Eflingar. vísir/vilhelm

Allt stefnir í æsi­spennandi for­manns­slag innan Eflingar á næstu vikum. Tveir stjórnar­menn stéttar­fé­lagsins hafa gefið kost á sér til for­mennsku en þeir hafa verið sitt hvoru megin línunnar í deilum sem komu upp innan fé­lagsins í haust þegar fyrr­verandi for­maður þess sagði af sér.

Við fráhvarf Sólveigar Önnu Jónsdóttur úr Eflingu tók þáverandi varaformaður félagsins við formennsku, hún Agnieszka Ewa Ziółkowska, en nú er komið að því að velja nýjan formann.

Það kemur í hlut uppstillinganefndar að stilla upp nýrri stjórn og gera tillögu að formanni hennar. Síðan er það núverandi stjórnar og trúnaðarráðs Eflingar að samþykkja listann.

Eftir það geta félagsmenn boðið fram aðra lista.

Þau Guðmundur Baldursson stjórnarmaður og Ólöf Helga Adolfsdóttir varaformaður Eflingar hafa bæði gefið kost á sér í hlutverk formanns fyrir lista uppstillinganefndarinnar og útiloka ekki sérframboð ef þau verða ekki valin þar.

Helsta á­herslu­mál Guð­mundar er að lægja öldur innan fé­lagsins eftir storma­samt haustið.

„Það verður náttúru­lega að taka á þessu. Á öllu þessu upp­þoti sem búið er að vera. Það verður náttúru­lega að fá ein­hverja endan­lega lausn á þessu bara svo að fé­lagið geti starfað eðli­lega og allir sáttir,“ segir Guð­mundur.

Hann kveðst einnig vilja virkja betur þær stéttir innan fé­lagsins sem hafi nánast legið í dvala síðustu ár og tekið lítinn þátt í fé­lags­starfinu.

Þar eru þau Ólöf sam­mála og vill hún færa stéttar­fé­lagið aftur til fyrra horfs; gera það að virkara fé­lagi þar sem fé­lags­menn taka virkan þátt, mæti reglu­lega í hús­næði þess og fari jafn­vel ein­hverjir saman í skipu­legar ferðir.

„Mínar hug­myndir snúast um að sjá til þess að Sam­tök at­vinnu­lífsins komist ekki upp með að rífa niður réttindi launa­fólks,“ segir Ólöf.

Kjara­samningar verða auð­vitað lausir í ár og stefnir allt í harðar samninga­við­ræður.

Og því er eðli­legt að spyrja hvort fram­bjóð­endurnir séu góðir samninga­menn?

„Jah, ég er nú svo sem ekki eitt­hvað verri en ein­hver annar en ég er heldur ekki bestur í því, maður getur verið alveg heiðar­legur hvað það varðar,“ svarar Guð­mundur.

Hann kveðst þó klár í að taka slaginn og það er Ólöf líka.

„Við verðum bara með mjög á­kveðna kröfu­gerð sem að kemur beint frá fé­lags­mönnum og ég tel mig og Agni­ezku vera bara mjög góðar til þess að vinna það saman,“ segir Ólöf en Agni­ezka hefur sóst eftir því að verða aftur vara­for­maður fé­lagsins og þá með Ólöfu sem for­mann.


Tengdar fréttir

Vill stilla til friðar innan Eflingar og býður sig fram til formanns

Guðmundur Jónatan Baldursson, stjórnarmaður í stéttarfélaginu Eflingu, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku félagsins. Þetta staðfestir hann í samtali við fréttastofu. Sólveig Anna Jónsdóttir sagði af sér embætti formanns í lok október á síðasta ári. Guðmundur segist vilja koma á friði innan félagsins.

Býður sig fram til formanns Eflingar

Ólöf Helga Adolfsdóttir, varaformaður Eflingar og fyrrverandi hlaðmaður hjá Icelandair, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Eflingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×