Knattspyrnusamband Íslands hefur staðfest að íslenska landsliðið muni spila þrjá leiki gegn mjög sterkum andstæðingum í febrúar á þessu ári. Eru leikirnir liður í undirbúningi liðsins fyrir undankeppni HM og Evrópumótið sem fram fer í Englandi í sumar.
A kvenna verður á meðal þátttökuliða á SheBelieves Cup, sem fram fer í Bandaríkjunum í febrúar 2022.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) January 5, 2022
Auk Íslands taka landslið Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands og Tékklands þátt og eru leikdagarnir 17., 20. og 23. febrúar.#dottir #LeiðinTilEnglands pic.twitter.com/t82XGfclDD
Íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í hinu gríðarsterka æfingamóti SheBelieves Cup sem fram fer í Bandaríkjunum frá 17. til 23. febrúar. Ásamt Íslandi eru Bandaríkin, Nýja-Sjáland og Tékkland meðal þátttökuliða.
Ísland mætir Nýja-Sjálandi þann 17. febrúar á Dignity Health Sports-vellinum í Los Angeles, Kaliforníu. Þann 20. febrúar mætast Ísland og Tékkland á sama velli. Ekki er langt síðan Ísland rótburstaði Tékkland í undankeppni HM, lokatölur á Laugardalsvelli 4-0 stelpunum okkar í vil.
Að lokum mætast svo Ísland og Bandaríkin þann 23. febrúar á Toyota-vellinum í Frisco, Texas. Sá er engin smásmíð og tekur 20.500 manns í sæti.
„SheBelieves Cup er boðsmót fyrir A landslið kvenna á vegum Knattspyrnusambands Bandaríkjanna. Mótið hefur verið haldið árlega síðan 2016 og þar hafa tekið þátt mörg af sterkustu landsliðum heims,“ segir á vef KSÍ.
Mótið er einkar sterkt enda trónir heimaliðið, Bandaríkin, á toppi heimslista FIFA. Ísland er í 16. sæti, Nýja-Sjáland í 22. sæti og Tékkland tveimur sætum þar fyrir neðan.