Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu ætlar að hefja leika á mánudaginn. Upphaflega stóð til að börnin yrðu bólusett í skólum en í gær var tekin ákvörðun um að færa framkvæmdina inn í Laugardalshöll vegna manneklu hjá heilsugæslunni.
Bólusetningar barna hófust á Selfossi í gær þegar um 360 börn voru bólusett. En þau eru tíu og ellefu ára. Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri á Heilsugæslunni á Selfossi segir að dagurinn hafi gengið mjög vel.
„Þetta var um 60% mæting sem mér finnst bara mjög gott. Gott fyrirkomulag hjá okkur.“
Hvar eru börnin bólusett?
„Þau eru bólusett í einum skóla hér á Selfossi sem við fengum til afnota eftir skólatíma. Byrjum klukkan fjögur þegar skóla var lokið og allir starfsmenn farnir og vorum til átta í gærkvöldi að bólusetja.“
Börn búsett í Árnessýslu verða bólusett á Selfossi í ljósi samstarfsverkefnis. Í næstu viku verða sjö, átta og níu ára börn bólusett á Selfossi.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisstofnun Austurlands liggur ekki fyrir hvar börn verði bólusett í næstu viku en unnið er að framkvæmdinni.
Þá er einnig unnið að útfærslu á Norðurlandi. Jón Helgi Björnsson er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.
„Menn eru að skoða tvær leiðir annars vegar að bólusetja í skólum eða á hefðbundnum bólusetningarstöðum sem við höfum notað og það getur verið misjafnt eftir svæðum hvaða leið verður farið. Það fer eftir því hvað hentar og hverjar aðstæður eru á hverjum stað.“
Ekki náðist í forsvarsmenn heilbrigðisstofnunar Vesturlands við vinnslu fréttarinnar.