Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis. Tíu börn yngri en sextán ára hafa þurft á innlögn að halda hérlendis af um 9.300 sem hafa greinst, eða 0,1%. Tvö börn hafa þurft á gjörgæsluinnlögn að halda. Að auki hafa hundruð barna verið í nánu eftirliti á Barnaspítala en ekki þurft innlögn.
Þórólfur sagði að til samanburðar hafi eitt sautján ára ungmenni verið lagt inn á spítala vegna aukaverkunar bóluefnis gegn Covid-19. Þá hafi tilkynningar borist um sex alvarlegar aukaverkanir af um 22 þúsund bólusetningum eða 0,03%.
„Það er því ljóst að hér á landi eru alvarlegar aukaverkanir hjá börnum eftir Covid-19 að minnsta kosti þrisvar sinnum meiri en eftir bólusetningu. Þetta er í samræmi við reynslu og uppgjör erlendis, bæði í Bandaríkjunum og Danmörku.“
Hann bætti við að ný gögn frá Bandaríkjunum bendi til að innlögnum barna vegna ómíkrón sé þar að fjölga.

Stöðug þróun og innlögnum að fjölga
Alls greindust 1.135 einstaklingar með kórónuveiruna innanlands í gær og sextíu á landamærum. 45 sjúklingar liggja á Landspítala með Covid-19 og hefur þeim fjölgað um sex milli daga.
Fram kom í máli Þórólfs að faraldurinn hafi verið í línulegum vexti undanfarna daga með í kringum 1.100 tilfelli á dag. Allt að 300 greinist á landamærum og hafi aldrei verið fleiri.
Í gær greindust 293 börn á aldrinum tólf ára og yngri og 63 börn á aldrinum tólf til sextán ára.
Vaxandi fjöldi hefur þurft að leggjast inn á spítala samhliða aukningu í samfélagslegum smitum á síðustu vikum. Hefur fjölda sjúklinga á sjúkrahúsi aukist um 70% að undanförnu en staðið í stað á gjörgæslu.
Að sögn Þórólfs eru um 90% nú að greinast með ómíkron. Delta afbrigðið er þó enn til staðar og greinast í kringum 100 á dag. Hlutfall þeirra sem þurfa að leggjast inn er í kringum 0,5% af öllum greindum. Það er þó heldur lægra ef bara er miðað við á ómíkron eða 0,2 til 0,3%.
Fréttin hefur verið uppfærð.