Kristín Krantz sem er búsett í New York greindist smituð af Covid-19 í mars árið 2020 þegar fyrstu tilfellin greindust hér á landi. Þá greindist hún með alfa afbrigði veirunnar og varð töluvert veik og glímir enn við langvarandi afleiðingar sjúkdómsins.
„Þetta var á þeim tíma það sem ekki var hægt að testa fólk þar sem það voru ekki til test, eða að þeir voru að spara testin fyrir þá sem voru virkilega veikir,“ sagði Kristín Krantz, fasteignasali í New York.
Í maí á síðasta ári var hún bólusett.
„Í september fæ ég aftur Covid og það er delta. Ég hafði fengið alfa þarna fyrst og svo fæ ég delta seinna skiptið.“

Kristín varð ekki mjög veik af delta afbrigðinu og þakkaði bólusetningunni fyrir það. Í desember fær hún örvunarskammt og í þessum mánuði fær hún sjúkdóm sem hún þekkir kannski of vel, en í þetta skiptið ómikrón afbrigðið.
„Og ég var bara: Oh nei þú ert að grínast í mér, ég trúi því ekki að ég sé að fara að fá þetta aftur. Ég vaknaði á þriðjudagsmorgun og var bara rosalega veik. Þetta eru núna komin þrjú ár þar sem ég er búin að vera með covid „on og off“ og þetta hefur rosa áhrif á þol og getu.“

Svínaflensan og þrjú afbrigði Covid19
Hún segir ákveðinn vonbrigði að hafa fengið öll helstu afbrigði veirunnar: alfa, delta og omíkron.
„Þar á undan, ári áður en ég fékk Covid-19 þá fékk ég svínaflensuna þannig að ég er búin að vera í fjögur ár núna með rosalegar flensur alla vegana einu sinni á ári. Mér líður eins og ég sé eitthvað tilraunadýr. Ég segi bara eins og í pókemon: „Got to catch them all.“