Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá farsóttanefnd Landspítala, segir ástandið á spítalanum slæmt. Samkvæmt bjartsýnisspá var gert ráð fyrir að tæplega sextíu sjúklingar yrðu inniliggjandi á Landspítala vegna kórónuveirunnar fyrir 20. janúar næstkomandi. Svartsýnasta spá spítalans gerði hins vegar ráð fyrir að allt að níutíu manns yrðu inniliggjandi.
„Það er raunveruleg þörf vegna þess að þetta orðfæri að tala um bjartsýna spá er í raun og veru ekki gott, það er mismunandi. Spáin núna ætti eiginlega að heita vondur, verri, verstur. Og vonda spáin, sem er þá þessi svokallaða bjartsýnisspá, hún gerir ráð fyrir milli fimmtíu til sextíu inniliggjandi eftir viku og tíu á gjörgæslu og það er allt of mikið,“ segir Hildur.
Aðspurð telur Hildur að auknar takmarkanir þurfi til að Landspítali ráði við álagið. Að óbreyttu stefni í algjört neyðarástand í heilbrigðiskerfinu.
„Það er okkar mat að það sé það eina sem hægt er að gera. Það er að kæla niður samfélagið, það er að minnka umferðina, og það er til þess að ná smitunum niður úr þessum 1200 því þau leið til allt of margra innlagna. Þannig að við þurfum að ná þeim niður í svona 500 og það verður ekki gert öðruvísi en með hertum takmörkunum,“ segir Hildur Helgadóttir verkefnastjóri hjá farsóttanefnd Landspítala.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði minnisblaði til heilbrigðisráðherra í dag en vill ekkert gefa upp um innihald þess að svo stöddu. Talið hefur verið líklegt sóttvarnalæknir leggi til hertar aðgerðir vegna faraldursins.