Samkvæmt The Athletic fær Bruno tæp 100 þúsund pund á viku frá Manchester United. Hann var á 50 þúsund pundum er hann var leikmaður Sporting Lissabon og því nokkuð sáttur að tvöfalda laun sín er hann færði sig um set til Englands árið 2020.
Ofan á 100 þúsund pundin á viku fær Bruno bónusgreiðslur fyrir árangur Manchester United í Meistaradeild Evrópu.
Í nóvember á síðasta ári hóf félagið viðræður við Bruno um nýjan samning en Portúgalinn er ekki sáttur þar sem hann telur samninginn ekki endurspegla mikilvægi hans í liðinu.
Frá því Fernandes var keyptur til Manchester-borgar í janúar 2020 hafa aðeins Mohamed Salah og Harry Kane skorað fleiri mörk í ensku úrvalsdeildinni. Alls hefur Fernandes skorað 33 mörk og lagt upp 23 til viðbótar í þeim 70 leikjum sem hann hefur spilað.
Ekki kemur fram í frétt The Athletic hversu háa upphæð er um að ræða en ljóst er að hann er ekki á pari við launahæstu leikmenn félagsins. Cristiano Ronaldo er með 400 þúsund pund á viku, David De Gea kemur þar á eftir með 375 þúsund.
Þeir Paul Pogba, Raphaël Varane, Anthony Martial, Jadon Sancho, Edinson Cavani og Marcus Rashford eru allir með í kringum 200 þúsund pund á viku. Harry Maguire og Luke Shaw koma skammt þar á eftir.
Forráðamenn Man Utd eru enn rólegir yfir stöðu mála þar sem Feranndes er samningsbundinn til ársins 2025 og meira að segja þá getur félagið framlengt samning hans um eitt ár.