Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Um helmingur þeirra sem greinast með Covid 19 eru börn á grunn- og leikskólaaldri og ríflega fimm þúsund börn í Reykjavík voru fjarverandi úr skóla í gær. Skólastjóri hefur áhyggjur af tíundu bekkingum og þeim áhrifum sem skert skólahald gæti haft á þá. Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum og rætt við umboðsmann barna í beinni útsendingu en embættinu hefur borist fjöldi ábendinga um rétt barna sem sæta sóttkví eða einangrun til menntunar.
Þá verðum við einnig í beinni útsendingu frá Alþingi þar sem tekist hefur verið á um stöðuna í heilbrigðiskerfinu í dag og fylgjumst áfram með stöðunni á Tonga. Á nýjum myndum sést að eyríkið er þakið ösku.
Við ræðum einnig við formann umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar um gagnrýni Sjálfstæðismanna á þéttingu í borginni – sem er sögð til marks um málefnaþurrð og kynnum okkur breyttar venjur á þorranum í ljósi samkomutakmarkana.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.