Körfubolti

Vilborg: Viljum vera þarna uppi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Njarðvík hefur átt góðu gengi að fagna í Subway-deildinni í vetur.
Njarðvík hefur átt góðu gengi að fagna í Subway-deildinni í vetur. Vísir/Bára Dröfn

„Við erum bara mjög sáttar. Eftir misgóða byrjun náðum við að koma þessu saman í seinni hálfleik og landa þessum sigri sem er bara geggjað,“ sagði Vilborg Jónsdóttir fyrirliði Njarðvíkur eftir sigur liðsins gegn Grindavík í Subway-deildinni í körfuknattleik.

Það er saga á milli þessara liða. Fyrir utan að vera nágrannalið, sem setur alltaf auka krydd í leikinn, þá hafa þau mæst oft á síðustu mánuðum og meðal annars í úrslitaeinvígi 1.deildar á síðasta tímabili.

„Ég held þetta sé svona í öllum Suðurnesjaslögum, Keflavík, Njarðvík og Grindavík. Við viljum vinna og gerum það sem þarf til þess,“ sagði Vilborg en baráttan var góð í leiknum í kvöld.

Aliyah Collier hefur verið góð hjá Njarðvík á tímabilinu. Hún var hins vegar ekki upp á sitt besta í fyrri hálfleik í kvöld og fékk síðan sína fjórðu villu í upphafi síðari hálfleiks. Það virtist kveikja vel í henni því hún sýndi magnaðan leik í hálfleiknum.

„Það er mjög gefandi að spila með henni. Hún tekur yfir leiki ef hún þarf þess, stundum gengur það og stundum ekki og það er bara eins og hjá öllum öðrum. Hún er ekki svona leikmaður sem er leiðinleg við liðsfélaga. Hún rífur okkur upp og lætur okkur heyra það þegar við gerum eitthvað rangt og líka þegar við gerum eitthvað gott. Hún drífur okkur áfram og kennir okkur mjög mikið.“

Njarðvík er sannkallað spútniklið í Subway-deildinni í vetur og er jafnt Fjölni í toppsæti deildarinnar. Vilborg sagði að það kæmi Njarðvíkingum ekki endilega á óvart.

„Við vissum svo sem ekki hvað við værum að fara út í þegar við byrjuðum í deildinni. En þegar hún byrjaði þá fannst okkur við eiga heima þarna. Við viljum verna þarna uppi og ætlum að halda okkur þar,“ sagði Vilborg að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×