Fárviðri og jafnvel metsnjókomu er spáð í nokkrum ríkjum í kvöld en reiknað er með að Nýja England fari einna verst út úr bylnum. Neyðarástandi var lýst yfir í New York og Rhode Island fyrr í dag og þúsundum flugferða var aflýst vegna bylsins, þar á meðal flugi Icelandair til Boston og New York.
Esther Halldórsdóttir íbúi í Boston lætur ekki mikið á sig fá vegna veðursins. Íslendingar séu enda vanir slæmu veðri en veðrið sé þó misslæmt á austurströndinni.
„Þetta er kannski svolítið dramatískt hérna úti. Fólk er búið að vera að hamstra í búðunum og við lentum í þvílíkri traffík í gærkvöldi þegar við vorum að fara út að borða út af því að það var svo mikil umferð af því að fólk var að fara út í búð.“
„Fólk á bara að halda sig heima í dag og það er verið að ryðja snjóinn og svo verður þetta örugglega bara komið í venjulegt horf á morgun,“ segir Esther Halldórsdóttir íbúi í Boston í Bandaríkjunum.