Innlent

Rafmagn fór af á Vestfjörðum vegna veðurs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rafmagnslínum Orkubús Vestfjarða hefur slegið út í dag og ganga norðan- og sunnanverðir Vestfirðir á varaaflsvélum. 
Rafmagnslínum Orkubús Vestfjarða hefur slegið út í dag og ganga norðan- og sunnanverðir Vestfirðir á varaaflsvélum.  Vísir/Egill

Rafmagn fór víða af á Vestfjörðum um klukkan hálf tvö eftir hádegi. Norðan- og sunnanverðir Vestfirðir ganga nú á rafmagni frá varaaflsvélum og virkjunum. 

Þetta segir í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða en verið er að vinna að því að koma rafmagni á alla notendur. Þar segir að Vesturlína hafi slegið út um klukkan hálf tvö og að Bíldudalslína hafi ekki tollið í framhaldinu. 

Þá hafi Mjólkárlína Landsnets, sem liggur milli geiradals og Mjólkárvirkjunar, leyst út á sama tíma. 

Vonskuveður gengur nú yfir vestanvert landið með éljum og hríð. Samgöngur hafa raskast, sérstaklega á fjallvegum og fólk hefur verið varað við því að einstaklega slæm færð er á Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði. Vegagerðin varar við því að loka gæti þurft Öxnadalsheiði með stuttum fyrirvara. 

Snjóflóð hefur fallið í Bjarnadal í norðanverðri Gemlufallsheiði og lokað þar vegi. Þá verður Súðavíkurhlíð lokað af öryggisástæðum vegna veðurs klukkan 15. 

Innanlandsflug til og frá Ísafirði hefur þá verið fellt niður í dag vegna veðurs. Sömuleiðis hefur Strætó fellt niður ferðir á milli Hafnar og Reykjavíkur í dag. Þá féll ferð Strætó frá Akureyri í Borgarnes í morgun niður og strætó á leið frá Reykjavík til Akureyrar fór ekki lengra en í Borgarnes vegna veðurs. Ferðir á milli Reykjavíkur og Akureyrar seinni partinn eru í skoðun.


Tengdar fréttir

Rask á innanlandsflugi vegna hvass­viðris og élja­gangs

Veturinn hefur látið rækilega til sín taka á norðurhveli jarðar um helgina, með tilheyrandi óþægindum. Búast má við talsverðum samgöngutruflunum vegna veðurofsa á landinu í dag en gular veðurviðvaranir eru í gildi á öllu vestanverðu landinu. Veðurfræðingur varar fólk við því að stunda útivist vegna hvassviðris og éljagangs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×