Handbolti

Aron endaði með silfur á Asíumótinu

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Kristjánsson og hans menn urðu að sætta sig við tap í úrslitaleik Asíumótsins.
Aron Kristjánsson og hans menn urðu að sætta sig við tap í úrslitaleik Asíumótsins. Getty/Sven Hoppe

Aroni Kristjánssyni tókst ekki að rjúfa sigurgöngu Katar á Asíumótinu í handbolta en fer heim frá Sádi-Arabíu með silfurmedalíu sem þjálfari Barein.

Aron komst af öryggi með Barein í úrslitaleik Asíumótsins en þar mætti liðið ofjörlum sínum og varð að sætta sig við fimm marka tap, 29-24.

Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og liðin skiptust á að hafa forystuna. Barein gat minnkað muninn í eitt mark í lok fyrri hálfleiks en missti boltann og Katar jók muninn í þrjú mörk af vítalínunni, 14-11, áður en liðin gengu til búningsklefa.

Katar komst svo í 22-17 um miðjan seinni hálfleik. Aron reyndi að bæta úr stöðunni með því að taka leikhlé en Barein tókst ekki að skapa spennu á lokakaflanum og varð að sætta sig við silfur.

Þetta er fimmta skitpið í röð sem að Katar fagnar sigri á Asíumótinu. Í fjórum þessara síðustu fimm úrslitaleikja hefur liðið mætt Barein, sem enn á eftir að verða Asíumeistari.

Heimamenn í Sádi-Arabíu unnu bronsverðlaun í ár með 26-23 sigri á Íran fyrr í dag. Suður-Kórea varð svo fimmta Asíuliðið til að tryggja sér sæti á HM á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×