Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands en þar segir að eftir hádegi eigi að lægja og stytta upp á sunnanverðu landinu. Á meðan bætir í vind og ofankomu norðanlands seinnipartinn. Frost á bilinu eitt til átta stig.
Norðan 8 til 15 metrar á sekúndu og él á morgun, en léttskýjað sunnan heiða. Hægari vindur síðdegis.
„Það hvessir seint um kvöldið og aðra nótt. Á mánudagsmorgun er búist við suðaustan roki eða ofsaveðri með snjókomu, en slyddu eða rigningu um tíma á láglendi sunnanlands. Síðan tekur við hvöss suðvestanátt með éljagangi, en styttir upp á Norður- og Austurlandi síðdegis,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á sunnudag:
Norðlæg átt 8-15 m/s og él, en þurrt og bjart sunnan heiða. Frost 2 til 7 stig. Dregur úr vindi og ofankomu síðdegis. Vaxandi austanátt S- og V-lands um kvöldið.
Á mánudag:
Suðaustan stormur um morguninn, en rok eða ofsaveður á S- og V-landi. Víða snjókoma, en slydda nærri sjávarmáli S-lands.
Snýst í hvassa suðvestanátt með éljum fyrir hádegi á S- og V-verðu landinu. Dregur úr vindi og styttir upp á N- og A-landi seinnipartinn. Hiti um og undir frostmarki.
Á þriðjudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt, víða á bilinu 5-13 m/s. Snjókoma eða él, en þurrt A-lands. Frost 1 til 6 stig.
Á miðvikudag:
Norðanátt, skýjað með köflum og dálítil él á N- og A-landi. Herðir á frosti.
Á fimmtudag:
Vestlæg átt og bjartviðri, en sums staðar él við ströndina. Áfram kalt í veðri.
Á föstudag:
Útlit fyrir sunnanátt með hlýnandi veðri.