Erlent

Þurfti aðstoð lögreglu fyrir utan þinghúsið

Samúel Karl Ólason skrifar
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins. EPA

Lögreglan í London þurfti að koma Keir Starmer, leiðtoga Verkamannaflokksins, til aðstoðar eftir að æstir mótmælendur veittust að honum fyrir utan þinghúsið. Mótmælendurnir hópuðust að Starmer og öskruðu „svikari“ og „Jimmy Savile“.

Breskir þingmenn beina spjótum sínum að Boris Johnson, forsætisráðherra, í kjölfar atviksins en hann hafði nýverið haldið því fram að Starmer hefði mistekist að lögsækja barnaníðinginn alræmda Jimmy Savile á árum áður.

Þar var um gamla og ósanna sögu að ræða. Einn aðstoðarmanna Johnsons sagði upp störfu í kjölfar þess að forsætisráðherrann lét þessi ummæli falla.

Sjá einnig: Fimm nánir aðstoðarmenn Borisar segja upp

Í frétt Sky News segir að einhverjir mótmælendanna hafi verið að mótmæla sóttvarnaraðgerðum vegna faraldurs kórónuveirunnar en margir hafi heyrst saka Starmer um að verja barnaníðinga.

Hér má sjá tíst eins Davids Lammy, þingmanns Verkamannaflokksins, sem kennir Boris Johnson um atvikið. Hann var á staðnum.

Í frétt Guardian segir að það séu ekki bara þingmenn Verkamannaflokksins sem séu reiðir út í Johnson vegna atviksins. Nokkrir núverandi og fyrrverandi þingmenn Íhaldsflokksins hafi gagnrýnt forsætisráðherrann og þar á meðal eru þingmenn sem hafa opinberað að þau vilji losna við Johnson sem leiðtoga flokksins.

Johnson sjálfur sagði á Twitter að hegðun fólksins í garð leiðtoga stjórnarandstöðunnar væri fyrir neðan allar hellur og að áreiti í garð stjórnmálamanna væri óásættanlegt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×